Nýtt skip Olíudreifingar.



Þann 12. febrúar 2019 kom til hafnar í Reykjavík nýtt skip Olíudreifingar eftir 4.200 sjómílna siglingu heim frá Adana í Tyrklandi þar sem skipið var smíðað í Akdeniz skipamsíðastöðinni. Skipinu var gefið nafnið Keilir sem er nafn í eigu Olíudreifingar og skip félagsins sem smíðað var í Kína 2002 bar. Keilir mun leysa af hólmi M/T Laugarnes sem verið hefur í eigu Olíudreifingar frá 1998. Samningur um smíði nýs skips var undirritaður í Reykjavík 16. janúar 2018 og er skipið smíðað samkvæmt hönnun skipasmðíðastöðvarinnar en Keilir er 5. skipið sem smíðað er skv. þessari sömu teikningu. Keilir er jafnframt fjóða tankskipið sem smíðað er fyrir Íslenska útgerð. Áður höfðu Stapafell I og Stapafell ll verið smíðuð fyrir Olíufélagið og Skipadeild Sambandsins á árunum 1962 og 1979 og siðan fyrri Keilir fyrir Olíudreifingu í Shanghai árið 2002. Samtals hafa verið ellevu olíuflutningaskip í eigu Íslendinga og eru þá undanskildir bátar.
Við smíði skipsins var ekki síst horft til framfara í öryggismálum. Í nýjum Keili eru miklar framfarir í öllu sem snýr að öryggi við flutning sjóleiðis á eldsneyti frá því sem er í Laugarnesinu. Má þar nefna að skipið er að sjálfsögðu með tvöföldum botni og birgðingi, tveimur aðalvélum ásamt tveimur stýrum og skrúfum sem veitir mikið öryggi við erfiðar aðstæður komi t.d. til bilunar á aðalvél en skipinu verður auðveldlega siglt með afli annarrar aðalvélar. Einnig er öll stjórnun skipsins markvissari og öruggari með tveimur skrúfum en ef aðeins væri einfalt drifkerfi. Skipið er auk þess búið öflugri bógskrúfu ásamt slökkvibúnaði ofl sem eykur allt á öryggi skipsins. Hitunarbúnaður er í öllum átta geymum sem málaðir eru með epoxy málningakefi frá Hempels en einnig eru til staðar þvottavélar til þvotta á farmgeymum. Átta Svanehoj farmdælur eru í skipinu eða ein í hverjum tank.


Keilir er mun afkasta meira skip en Laugarnesið sem sést m.a. á aukinni burðargetu og verulegri aukningu í dæluafköstum sem allt að fjórfaldast í birgðaflutningum auk aukins ganghraða. Í skipinu eru 4 eins manns klefar með snyrtingum og öllum helsta búnaði til afþreyingar. Fullkomin eldunaraðstaða er í skipinu og borðsalur. Brú skipsins er búin öllum helstu siglingatækjum sem lagt er upp úr að séu til staðar í dag Öll stjórnun við lestun og losun eldsneytis fer fram í brú skipsins. Hægt er að stjórna þaðan dælubúnaði, fylgjast með afköstum í dælingu, ásamt magni.
Það hefur sannast við smíði Keilis sem var reyndar áður vitað að gæði og áreiðanleiki skipasmíða sem og annarra verklegra framkvæmda ræðst af því hversu vel verk er undirbúið áður en til framkvæmda kemur og hversu mikilvægt það er að viðhafa öflugt eftirlit á smíðatímanum. Þessir þættir ásamt faglegu vali á skipasmíðastöð réðu mestu um það hversu vel tókst til með smíði Keilis. Eftirlit með smíði skipsins var í höndum Gunnar Jónssonar en hann sá um eftirlit með smíði Keilis allt frá byrjun og til afhendingar. Gunnar fékk sér til liðsinnis aðstoð frá Einari A Kristinssyni og Hermanni Haraldssyni frá NAVIS sem komu á smíðastað með reglulegu millibili. Einnig var ráðinn til eftirlits og vali á rafbúnaði Knut Furuheim frá X advisors í Sdandefjörd en hann hefur m.a. sinnt eftirliti í skipasmíði fyrir Norsku Samgöngustofuna. Einnig naut Gunnar aðstoðar frá þeim Árna Ingimundarsyni, Auðni Birgissyni og Grétari Mar Steinarssyni starfsmönnum Olíudreifingar.
Tíma áætlanir stóðust ágætlega en það leið aðeins um eitt ár frá því að skrifað var undir samning um smíði Keilis og þar til hann var afhentur til heimferðar í Adana þann 18. janúar s.l. Öll samskipti okkar við starfsmenn Akdeniz voru mjög góð allan tímann sem er ómetanlegt. Smelltu hér: til að sækja viðhengi fyrir nánari upplýsingar.



Oliudreifing | Holmaslod 8-10 | 101 Reykjavik 
 tel +354 550-9900 | fax: 550-9999 | odr@odr.is

 
Sími:

550 9900

 
Sendu okkur mail:
odr@odr.is