Hratt flýgur stund.  Þann 2. júní varð Olíudreifing 20 ára.  Í byrjun júní árið 1995 var félagið stofnað af Olíufélaginu (ESSO) og Olíuverslun Íslands (Olís) og fljótlega var ráðinn til félagsins fyrsti starfsmaður þess sem var Grétar Mar Steinarsson.  Grétar vann ásamt nokkrum starfsmönnum eigenda að undirbúningi og skipulagi að starfseminni en leiða má að því líkum að endurskipulagning og sameining dreifikerfa þessara félaga hafi verið ein viðamesta skipulagning vinnuferla sem framkvæmd hefur verið hérlendis. 

Sem kunnugt er hófst svo starfsemin formlega 1. janúar 1996 þegar við tókum yfir og sameinuðum þjónustudeildir eigenda okkar ásamt hluta af dreifikerfi þeirra s.s. innflutningshafnir í Örfirisey, Laugarnesi og í Hvalfirði.  Einnig var tekinn yfir rekstur Stapafells og samrekstur um Kyndil ásamt olíubátunum Bláfelli, Héðni Valdimarssyni og Lágafelli. Á fyrsta starfsári tók Olíudreifing við dreifingu frá Skaftafelli í austri að Húnaflóa, að sunnanverðum Vestfjörðum meðtöldum, árið eftir bættist norðurland við og yfirtaka á dreifikerfinu lauk svo árið 1998, að Keflavík og Ísafirði undanskildum.

Hlutverk Olíudeifingar hefur verið frá fyrstu tíð að hagræða í dreifingu og geymslu á eldsneyti ásamt því að sjá um sölu, uppsetningu og viðhald á sérhæfðum búnaði til eldsneytisafgreiðslu.  Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og er mælanlegur hvert sem litið er þó svo að á sama tíma hafi opinberar kröfur til starfseminnar aukist ár frá ári og hafa a.m.k. 177 ný lög og reglugerðir komið út frá stofnun félagsins svo fátt eitt sé nefnt. 

Í dag eru starfsmenn Olíudreifingar um 140 en voru flestir á upphafs árunum eða 198.  Sama má segja um birgðastöðvar sem voru í byrjun 76 talsins á 56 stöðum á landinu en í dag eru þær 23 á jafn mörgum stöðum og uppfylla allar þær kröfur um mengunar-  og eldvarnir sem gerðar eru til þessa reksturs.  Bifreiðar í eldsneytisflutningum voru 125 í byrjun starfseminnar en eru nú 44.  Ljóst er að birgðastöðvum á eftir að fækka enn frekar frá því sem nú er og flutningstækjum einnig.

Vert er að minnast þess mikla árangurs sem við höfum náð í fækkun slysa og óhappa en það er sá þáttur rekstrarins sem við megum aldrei slaka á. Klárlega er það ekki síst að þakka góðum verkferlum sem við fylgjum í daglegum störfum sem og þeim skyldum sem British Standard Institute setur á okkur með innleiðingu ISO staðla og vottunar.

Eins og kunnugt er hlaut Olíudreifing forvarnarverðlaun VÍS og Vinnueftirlitsins 4. febrúar s.l. og voru þau afhent á ráðstefnunni „Áskoranir atvinnulífsins í öryggismálum“.  Þar kom fram að verðlaunin eru veitt fyrirtæki fyrir framúrskarandi forvarnir og öryggismál og að mati framangreindra aðila er Olíudreifing þar í fremstu röð.

Öryggis- og umhverfismál eru málaflokkur sem við í Olíudreifingu höfum lagt mikið upp úr að sinna sem best og er þessi málaflokkur sífellt umfangsmeiri í rekstrinum.  Við erum þakklát - og okkur þykir að sjálfsögðu mjög vænt um að fá viðurkenningu sem þessa en gerum okkur jafnframt grein fyrir því að hún er ekki loka punktur eða endir neins.

Öryggismál og forvarnir eru stanslaus vinna sem við munum kappkosta að sinna enn betur í dag en í gær.  Öryggismál snúast fyrst og fremst um að vernda umhverfið - sem og líf og heilsu starfsmanna okkar og annarra.  Það má því segja að þetta sé ekki síst lýðheilsumál. 

Við höfum reynt í samráði við VÍS - sem alla tíð hefur verið okkar tryggingafélag og einnig á síðari árum með vottunarfélagi okkar, BSI, að endurskoða og efla alla okkar verkferla og aga vinnubrögð.  Einnig erum við í mjög góðu  sambandi og samvinnu við þær opinberu stofnanir sem rekstur okkar heyrir undir s.s. Vinnueftirlitið og Umhverfisstofnun, því að öll höfum við sömu markmiðin sem er að fækka óhöppum og slysum.  

Reglubundnar heimsóknir fagaðila og úttektir á starfsemi Olíudreifingar veita okkur nauðsynlegt aðhald og hvatningu til að standa okkur betur og færir okkur aukna þekkingu sem nýtist við forvarnir innan fyrirtækisins.  Í síðustu úttekt BSI fengum við enga skriflega athugasemd en nokkrar ábendingar um það sem betur má fara.  Það er því augljóst að við munum kappkosta að halda okkur á þessari braut og eigi það að takast verðum við öll að leggja okkur fram.

 

Árleg úttekt á starfsemi Olíudreifingar

Dagana 12–16. maí s.l. framkvæmdi úttektarmaður frá BSI árlega úttekt hjá Olíudreifingu vegna gæðastaðalsins ISO 9001, umhverfisstaðalsins ISO 14001 og öryggisstaðalsins OHSAS 18001, en sem kunnugt er var vottun á innleiðingu á þessum stöðum framkvæmd hjá Olíudreifingu um síðustu áramót. Það ríkti eftirvænting um að vita hver niðurstaða úttektarinnar yrði, því að þó að innleiðing staðlanna hafi gengið vel, er ekki sjálfgefið að takist að starfa eftir þeim svo ásættanlegt sé. 

Til að gera langa sögu stutta var útkoma úttektarinnar góð fyrir þar sem aðeins komu fram þrjár athugasemdir í skýrslunni sem ekki getur talist mikið en úttekt fór fram þegar full starfsemi var á öllum starfsstöðvum og gefur það okkur góða vísbendingu um að við séum að starfa eftir þeim öryggiskröfum og verklagi sem krafist er á fullnægjandi hátt.

Mikil vinna hefur Verið lögð í að koma upp og viðhalda þeim vinnuferlum sem staðlarnir kveða á um en á móti verður að hafa í huga að þeir eru ekki síst gerðir til að hindra slys og óhöpp og þar með að varðveita heilsu starfsmanna og verja umhverfið fyrir ágangi af mannavöldum. Í haust verður svo úttektum haldið áfram þegar nokkrir valdir staðir á landsbyggðinni verða heimsóttir.

Í dag skrifaði Hörður Gunnarsson, fyrir hönd Olíudreifingar ásamt 102 öðrum forsvarsmönnum fyrirtækja undir yfirlýsingu um loftslagsmál, í athöfn í Höfða:

"Við undirrituð ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum.


Þjóðir heims standa nú frammi fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Sameinuðu þjóðirnar gegna forystuhlutverki í að greina vandann, takast á við hann og aðlagast breyttum aðstæðum.

Borgir og bæir ásamt fyrirtækjum af öllum stærðum, verða sífellt mikilvægari þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og standast þau markmið sem sett hafa verið um losun þeirra.

Á Íslandi er ein helsta áskorunin mengandi samgöngur og losun úrgangs. Við ætlum að sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að:

 

  1. draga úr losun gróðurhúsalofttegunda

  2. minnka myndun úrgangs

  3. mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta.

 

Fellur þetta verkefni vel að umhverfisstefnu og markmiðum Olíudreifingar og verður spennandi að taka þátt í samstarfi þessara fyrir tækja í framhaldinu.

bsi-iso-9001

Eftir úttekt BSI, British Standard Institute, hefur öll starfsemi Olíudreifingar ehf nú fengið gæðavottun samkvæmt ISO 9001:2008 gæðastaðlinum.

Gæðastjórnunarkerfi dreifingarsviðs og aðalskrifstofu hafa verið vottuð síðustu þrjú árin, en í síðustu úttekt voru þjónustusvið, tæknisvið og sölusvið tekið með í gildissvið vottunarinnar og þar með allt fyrirtækið.